Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í dag verulega ölvaðan mann sem hafði gengið inn í verslun ÁTVR í miðborginni í hádeginu í dag, opnað þar flösku og byrjað að drekka úr henni. Án þess að borga fyrir hana. Hann var handtekinn þar sem ekki var hægt að ræða við hann sökum ölvunar, samkvæmt dagbók lögreglu, og vistaður í fangageymslu.
Tilkynnt var um tvo þjófnaði úr bílum í miðbænum í dag.
Kallað var eftir lögreglu og sjúkraliði eftir að maður datt af hesti í Kópavogi. Hann var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.
Þá hafði lögreglan afskipti af manni sem var á rölti í Hafnarfirði, reykjandi marijúana. Við leit á manninum fannst önnur jóna á honum og verður hann kærður fyrir vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna.
Lögreglan handtók í dag konu skömmu fyrir þrjú í dag vegna gruns um að hún væri að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þar að auki hafði hún verið svipt ökuréttindum áður. Eftir skýrslu- og blóðsýnatöku var henni sleppt.
Innlent