Íslenski boltinn

Loksins útskýrt hvers vegna KA-markið var dæmt af: „Framkvæmdin á þessu er rosalega léleg“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eins og Vísir fjallaði um í síðustu viku varð allt vitlaust á Grindavíkurvelli þegar að dómarakvartettinn dæmdi mark af KA í seinni hálfleik á móti Grindavík í 2-1 sigri KA í Pepsi-deild karla.

Enginn skildi hvers vegna markið var dæmt af og var allt í kringum atvikið hið furðulegasta því Grindjánar, sem kvörtuðu ekkert, voru að fara að taka miðju þegar dómararnir ákváðu allt í einu að dæma rangstöðu.

„Þetta varð eitt allsherjar fíaskó og ég tók ekki eftir því að markið var dæmt af fyrr en mínútu seinna,“ sagði Gunnar Jarl Jónsson, sérfræðingur Pepsi-markanna sem sex sinnum á átta árum í Pepsi-deildinni var kjörinn besti dómarinn af leikmönnum.

Gunnar Jarl útskýrði loks hvað gerðist og bendir á að það er hárrétt að Elfar Árni Aðalsteinsson er rangstæður þegar að hann hindrar för Grindvíkingsins Gunnars Þorsteinssonar að marki sínu. En, það á margt eftir að gerast áður en að KA skorar.

„Framkvæmdin á þessu er mjög léleg. Ef þú ætlar að dæma rangstöðu dæmirðu um leið og Elfar hindrar Gunnar. Eftir það koma tvö ný „móment“,“ sagði Gunnar Jarl í þætti gærkvöldsins.

„Það er búið að senda þessa klippu víða og það eru allir sammála um að það er rangstaða þegar að Elfar Árni hindrar Gunnar Þorsteins en framkvæmdin á þessu er rosalega léleg. Það skilur enginn í knattspyrnuheiminum það, að mark sé dæmt af þegar að tvö ný móment hafa átt sér stað.“

„Ég vil meina að markið eigi að standa og það eru 99,9 prósent sömu skoðunnar,“ sagði Gunnar Jarl Jónsson.

ALla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×