Greint var frá því á vef Smartlands Mörtu Maríu í gær að bresku hjónin Victoria og David Beckham hefðu skoðað íbúðir á nýbyggðu Hafnartorgi í Reykjavík.
Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason tók fréttina upp og spurði sig hvort að flugufótur væri fyrir þessum tíðindum eða hvort einungis væri um orðróm að ræða til að reyna að glæða áhuga á dýrum fasteignum sem ekki ganga út?
Ragnhildur Sverrisdóttur lagði orð í belg í athugasemdakerfi undir færslu Egils þar sem hún sagði það vera undarlega markaðssetningu að skrökva íbúðakaupum upp á þekkt fólk í þeirri von að eftirspurnin aukist.

„Ég hef fengið það staðfest að þetta er tóm tjara. Þau eru ekki að leita sér að íbúð hér og hafa ekki skoðað íbúðir í þessu húsi, eða aðrar íbúðir hér. Þau er ekki að leita sér að íbúð hér á landi.“
Vinátta Björgólfs Thors og David Beckham er vel þekkt en fjölskyldur þeirra hafa meðal annars verið saman í fríi í Bandaríkjunum.
Spurð hvort að Ragnhildur hefði fengið það staðfest frá Björgólfi að Beckham-hjónin hafi ekki skoðað íbúðir á Hafnartorgi eða veitt þeim áhuga á nokkurn hátt, svarar hún því játandi.
Þess ber að geta að fréttin um meintan áhuga Beckham-hjónanna er ekki lengur aðgengileg á vef Smartlands Mörtu Maríu.