Lífið

Háðfuglarnir furðu lostnir yfir Trump og „hrossasmettinu“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jimmy Kimmel, Stephen Colbert og James Corden fóru yfir málin í þáttum gærkvöldsins.
Jimmy Kimmel, Stephen Colbert og James Corden fóru yfir málin í þáttum gærkvöldsins. Skjáskot/Youtube
Bandarískir spjallþáttastjórnendur vöktu flestir máls á ummælum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um klámstjörnuna Stormy Daniels í þáttum gærkvöldsins, enda fóru ummælin líkt og eldur í sinu um miðla vestanhafs í gær.

Greint var frá því í fyrradag að dómari hefði vísað frá ærumeiðingarmáli Daniels gegn Trump. Trump fagnaði að vonum niðurstöðunni á Twitter-reikningi sínum í gær og sagði þar sigri hrósandi að Daniels væri „hrossasmetti“. Daniels svaraði Trump um hæl og gaf í skyn að forsetinn hefði kynferðislegan áhuga á dýrum, þar sem hann teldi hana líta út eins og hest.

Eins og áður segir snertu spjallþáttastjórnendur á þessu hitamáli í þáttum sínum í gær. Jimmy Kimmel þótti ummæli forsetans til að mynda ekki ýkja vinaleg.

„Þú ert nú ekki hlýlegur í garð konunnar sem þú naust stuttra, ruglingslegra ásta með á meðan hún flengdi þig með tímariti þar sem þú prýddir forsíðuna, er það nokkuð?“ sagði hann m.a. í innslagi um málið.

Stephen Colbert ræddi niðurstöðu dómarans S. James Otero, sem vísaði máli Daniels frá í vikunni. Otero sagði meint ærumeiðandi ummæli forsetans einfaldlega dæmi um „orðagjálfur“ sem tíðkast í stjórnmálum. Colbert sagði dómarann aðeins hafa komist að þeirri niðurstöðu þar sem Trump hefði sett ný viðmið í pólitísku landslagi Bandaríkjanna.

„Forseti Bandaríkjanna á nú í ritdeilum við klámstjörnu á Twitter, eða eins og Otero myndi kalla það, eðlilegt.“

James Corden velti því svo fyrir sér hvort enn væri hlýtt á milli forsetans og klámstjörnunnar.

„Þið munið kannski eftir því en Daniels sagði nýlega að Trump væri með „körtutyppi“. Trump segir hana vera með „hrossasmetti“. Er það bara ég, eða má enn merkja neista á milli þeirra?“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.