Innlent

Konan sem slasaðist við Gullfoss fór í aðgerð vegna blæðingar inn á heila

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Þyrla var kölluð út eftir að ferðamaður rann á steinhellu við myndatöku við fossinn síðdegis í gær.
Þyrla var kölluð út eftir að ferðamaður rann á steinhellu við myndatöku við fossinn síðdegis í gær. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Konan sem slasaðist við Gullfoss í gær fór í aðgerð á Landspítalanum í gærkvöldi vegna innvortis blæðingar í höfði. Þetta segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við Vísi. Konan er bandarískur ferðamaður og fædd árið 1945.

Óskað var eftir aðstoð klukkan 14:08 í gær eftir að konan féll aftur fyrir sig á steinhellu við fossinn. Sveinn segir að hún hafi stigið aftur fyrir sig þegar hún var að taka myndir og reyndust áverkar hennar alvarlegir.

Staðarhaldari við Gullfoss gagnrýndi sein viðbrögð þegar slysið varð í gær á Mbl.is. Ekki var óskað eftir aðstoð þyrlunnar fyrr en sjúkraflutningamenn voru mættir á staðinn um klukkstund eftir slysið.

„Hún var með meðvitund fyrst og talaði við fólk,“ segir Sveinn Kristján.

„Þegar aðeins líður á þá byrjar hún að rugla og þá kemur í ljós blæðing í höfði og blæðir út um eyrun. Þá er forgangurinn hækkaður.“

Var þá óskað eftir þyrlu gæslunnar sem kom til móts við sjúkraflutningamenn og flutti konuna til Reykjavíkur.

Sveinn gat ekki gefið frekari upplýsingar um líðan konunnar að svo stöddu en sagði að ástand hennar hafi ekki verið nógu gott í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×