Þetta kemur fram í tilkynningu frá Njáli Ragnarssyni, oddvita Eyjalistans, sem verður formaður bæjarráðs í Eyjum en H-listinn og Eyjalistinn mynda nýjan meirihluta í bæjarstjórninni.
„Að ósk Eyjalistans mun Íris Róbertsdóttir ekki segja af sér sem bæjarfulltrúi eins og H-listinn hafði áform um, yrði oddviti hans bæjarstjóri.
Málefnasamningur hins nýja meirihluta verður kynntur í næstu viku,“ segir í tilkynningunni.
Íris tekur við starfinu af Elliða Vignissyni sem hefur verið bæjarstjóri í Eyjum frá árinu 2006.
Óánægja með að ekkert varð af prófkjöri
Í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum náði Elliði ekki inn í bæjarstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn náði aðeins þremur mönnum inn en Elliði skipaði 5. sætið á lista flokksins.Mikil óánægja var með það á meðal Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum að ekki skyldi haldið prófkjör hjá flokknum í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna.
Litlu mátti muna að prófkjör færi fram í fyrsta skipti í 28 ár hjá flokknum í Eyjum en niðurstaðan var sú að aðal-og varamenn í fulltrúaráði flokksins í bænum kusu á milli frambjóðenda í svokallaðri „röðun.“
Íris var einn helsti talsmaður prófkjörsins en var boðið þriðja sæti á lista Sjálfstæðismanna sem hún þáði ekki.
Fór það síðan svo að hún leiddi lista nýja framboðsins Fyrir Heimaey, sem náði þremur mönnum í bæjarstjórn Eyja í kosningunum á laugardag, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn. Samstarfsflokkur Fyrir Heimaey, Eyjalistinn, er með einn mann í bæjarstjórn.
Fréttin hefur verið uppfærð.