Innlent

Óhug setur að borgarstjóra

Jakob Bjarnar skrifar
Hugur borgarstjóra er hjá manninum sem reykkafarar sóttu í fjölbýlishús í Grafarvogi.
Hugur borgarstjóra er hjá manninum sem reykkafarar sóttu í fjölbýlishús í Grafarvogi. visir/arnþór
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur tjáir sig á Facebook-síðu sinni um atburði næturinnar. Hann segir að það setji að sér óhug og hann hrósar viðbragðsaðilum í hástert.

„Það setur að manni óhug að heyra af eldsvoðum næturinnar. Ljóst er að mildi, snarræði íbúa og snör handtök Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins réðu því að ekki fór ennþá verr. Hugurinn er hjá manninum sem reykkafarar sóttu í fjölbýlishús í Grafarvogi. Samkvæmt frásögnum nágranna örmagnaðist hann við að fara um stigaganginn og ganga milli íbúða og vekja fólk. Hann liggur nú á gjörgæsludeild Landspítalans. Reykkafarar slökkviliðsins gerðu vel í að finna manninn fljótt og vel og ráða niðurlögum eldsins,“ segir Dagur í stuttum pistli sem hann birti nú í morgun.

„Rauði krossinn, Strætó og starfsfólk Landspítala fá einnig sérstakt hrós fyrir að hlúa að þeim sem lentu í eldinum. Fjölskylda í Mosfellsbæ náði að forða sér út um glugga eftir að reykskynjari gerði þeim viðvart um eld. Þeirra hús virðist því miður gereyðilagt, en lán að engum varð meint af. Við eigum gott að eiga bæði faglegt og vel þjálfað slökkvilið og fagfólk á öllum póstum sem er til reiðu þegar á þarf að halda.“


Tengdar fréttir

Reyndi að vekja nágranna sína

Maðurinn, sem liggur í lífshættu á Landspítalnum eftir að eldur kviknaði í íbúð hans í Grafarvogi í nótt, reyndi að vekja nágranna sína áður en hann féll í yfirlið á gangi fjölbýlishússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×