Innlent

Förgðuðu jólatrjám fyrir Garðbæinga

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Eyjólfur Ari Bjarnason, björgunarsveitarmaður.
Eyjólfur Ari Bjarnason, björgunarsveitarmaður.
Jólatrén sem fengu að fjúka um borð í bíla Hjálparsveitar skáta í Garðabæ í dag höfðu mörg séð betri daga enda flest líklega búin að þjóna tilgangi sínum vel yfir hátíðirnar. Sveitirnar þræddu götur Garðabæjar í dag og hirtu jólatré sem bæjarbúar höfðu komið fyrir við lóðamörkin en heimturnar voru nokkuð góðar í ár.

„Það hefur gengið bara nokkuð vel. Bara mesta furða. Góðar heimtir í ár," sagði Eyjólfur Ari Bjarnason, björgunarsveitarmaður, þegar fréttastofa leit við í jólatrjásöfnuninni í dag. 

Mikið af trjám? „Hef séð meira en alveg dágóður slatti."

Í Kópavogi var þjónustan svipuð þar sem starfsmenn þjónustumiðstöðvar bæjarins sóttu jólatré íbúa. Í Reykjavík og Hafnafirði þurfa íbúar hins vegar sjálfir að koma trjánum á haugana eða leita aðstoðar íþróttafélaga sem bjóðast nokkur til að sækja trén og farga þeim gegn gjaldi.

„Það er ekki rukkað fyrir þetta. Við bönkum ekki upp á og krefjumst gjalds fyrir hvert tré," segir Eyjólfur. „Þetta er svona árlegur viðburður og eiginlega byrjar á því að við fáum að höggva tré fyrir skógræktina í Garðabæ. Það fer síðan í kurlinn og aftur í stíga bæjarins," segir hann.

Er þetta einhvers konar fjáröflun? „Þetta er allt hluti af verkefninu í kringum jól og áramót. Þetta er kannski lokahnykkurinn í því einmitt," segir hann.

Eyjólfur segir þetta góða líkamsrækt. „Þetta er góða byrjun á góðu ári og tekur vissulega stundum svolítið á," segir hann. 

Eru þau stór trén hérna í Garðabænum? „Já ég held það sé óhætt að segja að þau séu sum ansi væn. Hávaxin," segir Eyjólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×