Skoðun

Dauðans alvara

Jón Páll Hreinsson og Pétur G. Markan skrifar

Þegar þessi orð eru skrifuð hefur einangrun Djúpsins verið viðvarandi frá laugardagskvöldi 13. janúar. Hvað þýðir það í nútímasamfélagi? Frá 13. janúar hafa allir vegir verið lokaðir til svæðisins, vegna ófærðar og snjóflóða, og flugsamgöngur verið stopular til landshlutans, vegna óhagstæðra vinda.



Tvær megin orsakir eru til grundvallar þessari eingangrun; erfitt flugvallarstæði á Ísafirði og Kirkjubólshlíð, hættulegasti vegur landsins, sem liggur á milli Ísafjarðar og Súðavíkur. Þetta eru tvær af helstu ógnum íbúa við Ísafjarðardjúp.



Þessi staða er blákaldur veruleiki íbúanna við Djúpið, ógnar mannslífum og hindrar alla framþróun, hvort sem litið er til lýðfræðilegrar þróunar eða atvinnuþróunar. Þetta lífshættulega ástand ætti aldrei að ræða af sveimhug, kraftleysi eða hálfkæringi. Þetta er dauðans alvara.



Það er skýlaus krafa okkar að lausn verði fundin á ótryggum flugsamgöngum. Ef það þýðir nýtt flugvallarstæði, þá er það bara réttlátt og öruggt. Einnig krefjumst við þess að Álftafjarðargöng fái röska meðferð innan samgönguáætlunnar, og verði komin til framkvæmdar næst á eftir Dýrafjarðargöngum. Þetta þarfnast ekki frekari umræðna.



Það liggur fyrir að uppbygging er hafin á Vestfjörðum með tilkomu fiskeldis. Sú uppbygging er vonlaus án þess að við fáum til okkar nýtt fólk – ungt fólk – hæft fólk – frábært fólk. Þetta fólk sættir sig ekki við þá stöðu sem við lýsum hér.



Krafa Vestfirðinga er að búa við sambærilega innviði og sambærilegt öryggi og aðrir landsmenn. Við búum í landi þar sem ekki er ásættanlegt að börn búi við hættu og öryggisleysi.



Þegar líf og framtíð Vestfirðinga er undir eru engar málamiðlanir, kraftleysi og afslættir í boði. Við öskrum, berjumst, tryllumst og hættum aldrei fyrr en þessum málum er siglt í örugga höfn. Slíkt er eðlilegt þegar börnin manns eru í húfi. Slíkt er skylda þegar framtíð Vestfjarða er undir.



Málið er dauðans alvara.



Greinin er eftir Jón Pál Hreinsson, bæjarstjóra Bolungarvíkurkaupstaðar, og Pétur G. Markan, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×