Nora Mörk kom fram í lok síðasta árs og sagði frá því að viðkvæmum myndum hafði verið stolið úr síma hennar en þjófarnir fóru síðan að dreifa myndunum af henni á netinu.
Nora Mörk komst meðal annars að því að myndirnar af henni höfðu verið í dreifingu innan norska karlalandsliðsins en nú hafa fjölmiðlamenn í Austur-Evrópu gengið einu skrefi lengra.
Verdens Gang segir frá því að umræddar myndir af Noru hefði birtst í dagblöðum í Austur-Evrópu.
Avis publiserte stjålne bilder av Nora Mørk https://t.co/HvD1YTtIes
— VG (@vgnett) January 17, 2018
TV2 talaði við Kåre Geir Lio, formann norska handboltasambandins. Hann hafði fengið að vita af þessu frá norska utanríkisráðuneytinu í viðkomandi landi. „Þetta er svo sorglegt að ég veit varla hvaða orð ég get notað,“ sagði Kåre Geir Lio.
Lögmaður Noru fékk upplýsingar um hvaða fjölmiðlar þetta voru og fór í málið. „Við höfum unnið að því að fjarlægja þessar myndir með hjálp lögfræðinga. Enginn fjölmiðill sem tekur sig alvarlega vill brjóta lög. Það er einnig hægt að nálgast þessa fjölmiðla allstaðar að í heiminum í gegnum netið,“ sagði John Christian Elden í yfirlýsingu sem hann sendi VG.
Norskir fjölmiðlar hafa ekki fengið viðtal við Noru Mörk en hafa rætt við föður hennar. Morten Mörk segir að fjölskyldan sé að fá hjálp í þessu máli en að þetta sé erfitt. Hann segir dóttur sína vera niðurbrotna og að hún sé orðin mjög örvæntingarfull enda virðast myndirnar alltaf poppa upp á nýjum og nýjum vettvangi. „Þetta er eins og að reyna að stoppa flóðbylgju,“ sagði Morten Mörk við TV2.
Lokað hefur verið fyrir ummæli við fréttina þar sem einstaka lesendur birtu slóð á myndirnar.