Innlent

Ætlar með túlkamálið alla leið til Strassborgar

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Áslaug Ýr Hjartardóttir heldur bar­átt­unni áfram.
Áslaug Ýr Hjartardóttir heldur bar­átt­unni áfram. Vísir/Anton Brink
„Ég sætti mig ekki við niður­stöðu Hæstaréttar,“ segir Áslaug Ýr Hjartardóttir, sem hefur ákveðið að fara með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Hæstiréttur Íslands staðfesti í nóvember  að Samskiptamiðstöð heyrnar­lausra hefði verið heimilt að synja beiðni Áslaugar um túlkaþjónustu í sumarbúðum í Svíþjóð.

Áslaug furðar sig á því að fjárveitingar Alþingis séu settar ofar stjórnarskrárvörðum réttindum en beiðni Áslaugar um túlkaþjónustu var hafnað á þeim forsendum að fjármunir til þessarar þjónustu væru takmarkaðir í fjárlögum.

Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður Áslaugar, segir Hæstarétt hafa í þessu máli snúið baki við þeim félagslegu réttindum sem 76. gr. stjórnarskrárinnar sé ætlað að tryggja. Þá hafi verið horft fram hjá þeirri augljósu skyldu löggjafans að setja lög og reglur um þann rétt sem Áslaug og aðrir í hennar stöðu eigi að njóta. Eftir standi stjórnarskrárákvæði sem hefur enga þýðingu og tryggir engan rétt. Við það verði ekki unað. Hann segir að málinu verði vísað til Mannréttindadómstólsins nú í febrúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×