Innlent

Sviðs­stjóri skóla og frí­stunda­sviðs Reykja­víkur: „Við öndum bara með nefinu“

Atli Ísleifsson skrifar
Helgi Grímsson segist hafa heyrt frá Helbrigðiseftirlitinu ekki sé talin ástæða til að vera með einhverjar sérstakar ráðstafanir í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi.
Helgi Grímsson segist hafa heyrt frá Helbrigðiseftirlitinu ekki sé talin ástæða til að vera með einhverjar sérstakar ráðstafanir í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi. Vísir/Vilhelm
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla og frístundasviðs Reykjavíkur, segir starfsmenn borgarinnar nú bíða eftir skilaboðum frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og sóttvarnalækni um hvort að grípa eigi til sérstakra ráðstafana í skólum borgarinnar vegna jarðvegsgerla sem fundist hafa í neysluvatni Reykvíkinga.

„Við öndum bara með nefinu þangað til að sú niðurstaða liggur fyrir,“ segir Helgi.

Tilkynnt var í gærkvöldi að mælst hefði fjölgun jarðvegsgerla í kalda vatninu Í Reykjavík en tvö sýni sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tók 12. janúar stóðust ekki viðmið í reglugerð. 

Séu samstíga

Helgi segist hafa heyrt frá Heilbrigðiseftirlitinu að ekki sé talin ástæða til að vera með einhverjar sérstakar ráðstafanir í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi.

Helgi Grímsson.Reykjavíkurborg
„En þau vildu ráðfæra sig við sóttvarnalækni til að þessir opinberu aðilar séu samstíga. Við erum bara að bíða eftir skilaboðum en Heilbrigðiseftirlitið sagði í mín eyru að það þyrfti ekki að grípa til sérstaktra ráðstafana.“

Bíðum róleg

Helgi bendir á að grípa þurfi til sérstakra ráðstafana þar sem eru nýburar á heimilum fólks, og svo þar sem eru aldraðir og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Kannski er þetta stormur í vatnsglasi og við bíðum bara róleg,“ segir Helgi.

Fundur fulltrúa Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og sóttvarnarlæknis stendur nú yfir og má von á tilkynningu í kjölfar fundarins.


Tengdar fréttir

Jarðvegsgerlar í kalda vatninu í Reykjavík

Í varúðarskyni mælir Heilbrigðiseftirlitið með því að neysluvatn í vissum hverfum borgarinnar sé soðið ef um neytendur er að ræða sem eru viðkvæmir t.d. með lélegt ónæmiskerfi, ungabörn, aldraðir eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×