Dagur svarar Sigmundi á Twitter síðu sinni í dag. „Sigmundur Davíð tjáði sig gegn borgarlínu á Bylgjunni. Sagði tvennt þurfa til að hún gangi upp: þétting byggðar við stöðvarnar og miðkjarna sem dragi til sín fólk og umferð. Hann taldi hvorugt rétt,“ skrifar hann. „Hið fyrra er þó í planinu og hið síðara er ótrúlegt að hann afneiti.“
Þá segir Dagur að Sigmundur sé að mótmæla því að það sé mikil umferð til miðborgarinnar á háannatímum. „Allir sem fara á fætur fyrir átta vita að þetta er rangt,“ skrifar borgarstjórinn.
Dagur segist geta verið sammála um það að þétting byggðar við stöðvar borgarlínu sé forsenda þess að hún gangi upp. „Þetta hefur líka verið hluti af verkefninu frá upphafi í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Seltjarnarnesi og Mosó – þvert á pólitík,“ segir Dagur.
Almenningssamgöngur forsenda þess að tafatíminn aukist ekki fyrir einkabílaumferð
Dagur skrifar einnig um viðtalið við Sigmund á Facebook-síðu sinni og bendir á að forsenda þess að fleiri velji að nota almenningssamgöngur sé forsenda þess að tafatíminn aukist ekki fyrir einkabílaumferð til framtíðar.
„Án borgarlínu er óumflýjanlegt að tafatími í umferðinni aukist. Með borgarlínu komum við í veg fyrir það. Um það ber öllum umferðarútreikningum saman,“ segir Dagur.