Erlent

1.500 hundruð fluttir á brott vegna flóðahættu í París

Samúel Karl Ólason skrifar
Búist er við að flóðin muni ná hámarki í nótt.
Búist er við að flóðin muni ná hámarki í nótt. Vísir/AFP
Áin Signa í París í Frakklandi var rúmum fjórum metrum yfir sinni hefðbundnu vatnshæð í dag og búist er við að hún muni ná hámarki í nótt. Flytja þurfti um 1.500 manns frá heimilum sínum vegna flóða og hættu á frekari flóðum í og við borgina. Hundruð heimila eru án rafmagns.

Eins og franska fréttaveitan AFP bendir á er búist við því að áin muni ná í 5,85 til 5,95 metra hæð í nótt. Hæst hefur vatnshæðin farið í 8,62 metra árið 1910 en hún fór einnig í 6,1 metra árið 2016. Þá þurfti að flytja ómetanleg listaverk úr kjallara Louvre safnsins.



Sjá einnig: Náttúruhamfarir í Frakklandi



Öllum nema viðbragðsaðilum hefur verið bannað að sigla á ánni og hefur það komið verulega niður á ferðaþjónustuaðilum Parísar. Þá hefur lögreglan þurft að vara fólk við því að synda þar eða sigla smáum bátum á henni. Það er sagt vera bannað og einstaklega hættulegt.

Rigning á svæðinu hefur verið gífurlega mikil. Samkvæmt Veðurstofu Frakklands hefur úrkoma í desember og janúar aðeins tvisvar sinnum mælst meiri frá árinu 1900. Sérfræðingar segja að þó búist sé við hagstæðu veðri á næstu vikum mun það taka margar vikur að vatnið sígi í jörðina þar sem rigningin sé búin að vera svo mikil. Ómögulegt sé að segja til um skaðann sem flóðin hafi og muni valda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×