Ronaldo ‘Jacare’ Souza sýndi að enn er of snemmt að afskrifa hann þrátt fyrir að hann sé að nálgast seinni ár ferilsins. Jacare kláraði Derek Brunson með rothöggi í nótt.
UFC var með bardagakvöld í Charlotte í nótt þar sem þeir Ronaldo ‘Jacare’ Souza og Derek Brunson mættust í aðalbardaga kvöldsins. Þetta var í annað sinn sem þeir mættust en fyrri bardagann vann Jacare með rothöggi í 1. lotu fyrir rúmum fimm árum síðan.
Nokkrar efasemdir voru á kreiki fyrir bardagann hvort hinn 38 ára gamli Jacare væri enn meðal þeirra fimm bestu í heiminum í millivigt. Jacare sýndi það þó í nótt að hann á enn nóg eftir.
Eftir fremur rólega byrjun tókst Jacare að vanka Brunson með hásparki. Jacare fylgdi því svo eftir með höggum í gólfinu áður en dómarinn stöðvaði bardagann. Þetta var fjórði sigur Jacare á ferlinum eftir rothögg en hann er helst þekktastur fyrir uppgjafartökin sín.
Bardagakvöldið reyndist vera fínasta skemmtun en öll önnur úrslit kvöldsins má nálgast á vef MMA Frétta.

