Erlent

Tyrkir hyggjast sækja að Írak

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Tyrkneskir hermenn á leið til Afrin.
Tyrkneskir hermenn á leið til Afrin. Vísir/Getty
Tyrkneski herinn er tilbúinn til þess að sækja alla leið austur að landamærum Sýrlands og Íraks í aðgerðum sínum gegn YPG, hersveitum Kúrda. Þetta sagði Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, í gær. Ítrekaði hann að næst myndu Tyrkir taka borgina Manbij.

Manbij er nú undir stjórn YPG en bandarískir hermenn hafa allnokkrir aðsetur í borginni eftir að hernaðarbandalaginu gegn ISIS tókst að vinna borgina af skæruliðum árið 2016. Rétt eins og Tyrkir og Bandaríkjamenn eru Kúrdar aðilar að bandalaginu.

Tyrkir telja YPG hins vegar hernaðararm Verkamannaflokks Kúrda (PKK) en flokkurinn er álitinn hryðjuverkasamtök af bæði Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu. Því eru Bandaríkjamenn ekki sammála.

Erdogan sagði í gær að það þyrfti að „hreinsa Manbij“ og átti við að uppræta þyrfti hryðjuverkamennina úr YPG úr borginni.

Bandaríkjamenn hafa verið í borginni frá því í mars 2017 en þá tókst þeim að fá Tyrki til þess að hætta við áform sín um að taka borgina og í staðinn myndi YPG færa sig austur yfir ána Efrat. Það gerðist hins vegar aldrei og telur BBC líklegt að innrás Tyrkja nú gæti leitt til átaka á milli Bandaríkjamanna og Tyrkja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×