Innlent

Ekkert athugavert við flugvöllinn á Akureyri sem varaflugvöll

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Radaraðflugsbúnaður er við suðurenda Akureyrarflugvallar.
Radaraðflugsbúnaður er við suðurenda Akureyrarflugvallar. Fréttablaðið/Pjetur
Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia, segir alþjóðaflugvöllinn á Akureyri uppfylla öll skilyrði til að þjóna sem varaflugvöllur fyrir Keflavík.

Nýlega ákváðu flugmenn pólsks flugfélags, sem flýgur fyrir breska ferðaskrifstofu í beinu flugi til Akureyrar, í tveimur tilvikum að lenda ekki á flugvellinum þar heldur snúa til Keflavíkur. Meðal annars hefur því verið um kennt að svokallaður ILS-radaraðflugsbúnaður er aðeins við suðurenda vallarins en ekki þann nyrðri.

„Það er ILS í suðurendanum og þá er hægt að koma svokallað radaraðflug niður. Þeir höfnuðu því í bæði skiptin en íslensku flugfélögin fara alveg þetta aðflug. Það aðflug er þjálfað sérstaklega og þetta flugfélag er greinlega ekki með þjálfaða menn í það,“ segir Jón Karl. Koma eigi ILS-búnaði fyrir á norðurendanum næsta haust.

„Vandamálið sem þessar vélar lentu í má segja að sé sambland af óheppni og síðan að menn eru að fara inn á völl sem þeir eru óvanir og eru þá kannski aðeins hikandi í að nýta aðstöðuna. Í bæði skiptin sem þeir sneru frá komu mjög dimm él og þá hefðu engin tæki hjálpað. Þetta stóð í hálftíma og þá fóru vélar að lenda aftur en þeir fóru til Keflavíkur. Það er alltaf ákvörðun flugmannanna hverju sinni hvort þeir lenda eða ekki,“ útskýrir Jón Karl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×