Erlent

Varaforseti Bandaríkjanna í umdeildri heimsókn til Ísraels

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, ætlar ekki að hitta Mike Pence sem kominn til Ísraels.
Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, ætlar ekki að hitta Mike Pence sem kominn til Ísraels. visir.is/afp
Ísraelsmenn tóku vel á móti Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, sem kom í formlega heimsókn til landsins í dag. Til stóð að Pence færi í til Ísraels í desember en för hans var frestað til dagsins í dag. Pence fer á fund forsætisráðherrans, Benjamin Netanyahu á morgun að því er fram kemur á vef AFP.

Umdeild ákvörðun Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels olli reiði í Arabaríkjunum en þeim var algjörlega misboðið vegna ákvörðunar forsetans. Mahmud Abbas, forseti Palestínu, neitar að hitta Pence. Vegna málsins hefur Pence þurft að gera breytingar á ferðaáætlun sinni en nokkrir hafa aflýst fyrirhuguðum fundum með varaforsetanum.

Stóðu fyrir mótmælum

Yfirvöld í Palestínu efndu þann sextánda desember til mótmælagöngu þegar ráðgert var að Pence heimsækti Ísrael. Með mótmælagöngunni vildu þau láta í ljós megna óánægju sína og reiði með ákvörðun Bandaríkjaforseta. Palestínumenn hafa sagt að með útspilinu hafi Trump ógnað friðarviðræðum ríkjanna tveggja.

Yfirvöld í Palestínu boðuðu til mótmæla í desember vegna fyrirhugaðrar heimsóknar varaforseta Bandaríkjanna.Vísir.is/afp
Heimsóknin er lokaáfangastaður ferðalags varaforsetans en hann hefur meðal annars heimsótt Egyptaland, Jórdaníu og komið við í bækistöðvum bandaríska hersins nálægt sýrlensku landamærunum.

Beittu neitunarvaldi

Egyptar báru fram tillögu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þar að þess var krafist að breyting á stöðu Jerúsalem hefði ekkert lagalegt gildi.

Tillagan var svohljóðandi: „því er lýst yfir að engar ákvarðanir eða aðgerðir, sem var ætlað að hafa breytt eðli stöðu eða lýðfræðilegri samsetningu hinnar Helgu borgar Jerúsalem hafa lagalega þýðingu. Þær verði marklausar og felldar úr gildi og þess er krafist að ákvörðunin verði afturkölluð í samræmi við ályktun Öryggisráðsins.“

Fjórtán ríki Öryggisráðsins stuttu tillöguna en Bandaríkin beittu neitunarvaldi sínu gegn tillögunni. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×