Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að maðurinn hafi verið tilkynntur til yfirvalda í fjórgang, fyrst árið 2002. Starfaði maðurinn á skammtímaheimili sem rekið er af Barnavernd Reykjavíkur. Talið er að maðurinn hafi unnið með hundrað og fimmtíu til tvö hundruð börnum á heimilinu.
Forstöðumaður heimilisins segir að samstarfsfólk mannsins sé í áfalli vegna málsins en hann starfaði á heimilinu frá árinu 2010.
„Við megum ekki vanmeta þá hæfileika sem barnaníðingar búa yfir til að blekkja og ég held að þetta sé hugsanlega eitt slíkt dæmi,“ sagði Bragi í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.
„Menn geta í áraraðir blekkt allt umhverfi sitt og á sama tíma níðst á börnum sem eru í viðkvæmri stöðu og eiga erfitt með að segja frá, það er gömul saga og ný,“ segir Bragi.
Segir hann mikilvægt að viðeigandi stofnanir, sem og samfélagið allt, dragi lærdóma af slíkum málum svo koma megi í veg fyrir að þau eigi sér stað.
„Við þurfum að finna þá út hvernig við getum varnað því að slík mistök verði á nýjan leik og það held ég að sé okkar stóra verkefni framundan,“ segir Bragi.
Telur hann að mikið svigrúm sé til þess að bæta verkferla í slíkum málum og mikilvægt sé að koma á auknu samstarfi á milli lögreglu og barnaverndaryfirvalda. Þá telur hann mögulegt að ekki séu til nægjanlega skýrar lagaheimildir í lögum sem heimila lögreglu að gera barnaverndaryfirvöldum viðvart í þeim tilvikum þegar kærur berast gagnvart fólki sem starfar fyrir barnaverndarnefndar.
„Það þarf að setja sérstakar verklagsreglur um samstarf lögreglu og barnaverndaryfirvalda, rétt eins og við höfum gert í tengslum við Landspítalands og Barnaverndar og sjúkrastofnana er varða tilkynningaskyldu, við þurfum að eiga hliðstæðar reglur,“ segir Bragi.
Segist Bragi hafa áhuga á því að setjast niður með Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu sem og yfirmönnum hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur til þess að skerpa á slíkum reglum og bæta samstarf á milli þessa stofnanna, svo koma mætti í veg fyrir að sambærileg mál komi upp.