Fótbolti

KSÍ vill skýringar á fjölda umsókna íslenskra stuðningsmanna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Samkvæmt tölum frá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, sóttu Íslendingar um 53 þúsund miða á lokakeppni Heimsmeistaramótsins í Rússlandi næsta sumar.

Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, hefur beðið FIFA um skýringar á þessum fjölda umsókna frá Íslandi.

Þeir sem sóttu um miða í þessum hluta miðasölunnar, sem lokaði á hádegi í dag, munu fá svör um miðjan mars hvort þeir fái miða.

Stuðningsmenn Íslands fá um átta prósent miða á leikina í Rússlandi, sem eru um 3200 miðar á hvern leik, en allir leikvangarnir sem Ísland spilar á eru jafn stórir. Það er ljóst að 3200 er mun minni tala en 53 þúsund og því verður dregið úr potti umsækjenda hverjir fái miða á leikina.

13. mars hefst svo síðasta hólf miðasölunnar og þá verður það fyrstur kemur fyrstur fær.

Þessi tala, 53 þúsund, er í raun glórulaus miðað við þær upplýsingar sem KSÍ hefur. Einhverjir stuðningsmenn Íslands tryggðu sér þó miða á keppninna síðastliðið sumar og gætu þeir verið inni í myndinni.

Þá gæti einnig verið að miðar sem KSÍ bókar fyrir sambandið séu inni í tölunni, eða að þeir sem sóttu um mótsmiða og fylgja Íslandi út keppnina séu með bókaða miða á alla leiki Íslands og séu þar inni líka.

Mikil eftirspurn er eftir miðum á fyrsta leikinn gegn Argentínu 16. júní og leikinn gegn Nígeríu 22. júní. Hins vegar er mun minni aðsókn í miða á lokaleik riðilsins gegn Króötum.

Umfjöllun Guðjóns Guðmundssonar um miðasöluna í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×