Viðskipti innlent

Spá auknum rekstrarhagnaði hjá Marel

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels. Vísir/Valli
Hagfræðideild Landsbankans býst við að rekstrarhagnaður Marels fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) hafi aukist lítillega á fjórða fjórðungi síðasta árs frá sama tíma árið 2016. Spá sérfræðingar deildarinnar að EBITDA félagsins hafi verið 48,2 milljónir evra, sem jafngildir ríflega sex milljörðum króna, á fjórðungnum borið saman við 47,4 milljónir evra á síðasta fjórðungi ársins 2016.

Marel mun birta uppgjör fyrir fjórða fjórðung síðasta árs í næstu viku.

Greinendur bankans gera hins vegar ráð fyrir því að rekstrarhagnaðurinn aukist verulega, eða um 10,7 prósent, á þessu ári og rjúfi 200 milljóna evra múrinn. Benda þeir meðal annars á mikill vöxtur pantanabókarinnar gefi góð fyrirheit fyrir tekjuvöxt næstu fjórðunga.

Búist er við að afkoma Icelandair Group hafi versnað á síðasta fjórðungi 2017.Vísir/Anton Brink
Hagfræðideildin spáir því að EBITDA Icelandair Group hafi verið neikvæð um 18,9 milljónir dala, jafnvirði 1,9 milljarða króna, á fjórða fjórðungi síðasta árs, en félagið birtir einnig uppgjör í næstu viku. Er það í nokkru samræmi við spár stjórnenda félagsins sem gera ráð fyrir að EBITDA fjórðungsins hafi verið neikvæð á bilinu 12 til 22 milljónir dala.

Til samanburðar var EBITDA félagsins jákvæð um 2,5 milljónir dala á sama fjórðungi árið 2016. Félagið mun birta uppgjör fyrir fjórða fjórðung síðasta árs í næstu viku.

Í afkomuspá hagfræðideildarinnar er bent á að eldsneytiskostnaður hafi verið sjö prósentum hærri og gengisvísitalan tveimur prósentum lægri en stjórnendur Icelandair Group ráðgerðu á fjórða fjórðungi. Það ætti að öllu óbreyttu að hafa í mesta lagi tveggja til þriggja milljóna dala neikvæð áhrif á rekstur félagsins. Verkfall flugvirkja hafi einnig skaðað reksturinn, hugsanlega um sem nemur einum til þremur milljónum dala, þótt ómögulegt sé að gera grein fyrir raunkostnaði þess.

Fréttin birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×