Innlent

Hellisheiði lokað

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ökumenn ættu að geta ekið Hellisheiði og Þrengsli í dag þrátt fyrir að akstursskilyrðin séu ekki fullkomin.
Ökumenn ættu að geta ekið Hellisheiði og Þrengsli í dag þrátt fyrir að akstursskilyrðin séu ekki fullkomin. VÍSIR/ANTON
Aftur er búið að loka veginum um Hellisheiði. Þrengsli eru hins vegar opin. Þar er þó hálka. Aðrar umferðaræðar til höfuðborgarinnar eru greiðfærar.

Uppfært kl. 8:24: 

Samkvæmt nýrri tilkynningu frá Vegagerðinni má gera ráð fyrir að Mosfellsheiði og Þrengslum verði lokað fljótlega. Þar er nú óvissustig.

Það eru hálkublettir og snjókoma á Höfuðborgarsvæðinu. Þá er snjóþekja og snjókoma á Reykjanesbraut og á Reykjanesi. Hálka og skafrenningur er á Sandskeiði og í Þrengslum.

Á Suðurlandi er víðast hvar snjóþekja eða hálka og snjókoma. Þungfært og éljagangur er á Lyngdalsheiði en þæfingsfærð austanmegin við Þingvallavatn.

Það er hálka, snjóþekja eða þæfingur og skafrenningur eða éljagangur á vegum á Vesturlandi. Þæfingsfærð er á Holtavörðuheiði en þungfært á Bröttubrekku.

Sjá einnig: Hvassviðri, snjókoma og „almenn leiðindi“ í kortunum

Á Vestfjörðum er svo þæfingsfærð eða þungfært á flestum fjallvegum en snjóþekja eða hálka á lálendi og verið að hreinsa að sögn Vegagerðarinnar.

Þá er víða hálka, snjóþekja eða þæfingur á Norðvesturlandi ásamt éljagangi. Þar er einng unnið að hreinsun. Að sama skapi er hálka eða snjóþekja á vegum á Austurlandi og með suðausturströndinni.

Búast má við áframhaldandi éljagangi og hvassviðri sunnan- og vestantil á landinu næstu daga. Má því gera ráð fyrir að færð og skyggni kunni að spillast og ættu ökumenn því að hafa varann á.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×