Erlent

Sló met með átta klukkutíma ræðu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Leiðtogar öldungadeildar Bandaríkjaþings komust í dag að að samkomulagi um fjárlagafrumvarp til næstu tveggja ára en Pelosi segist ekki geta stutt tillöguna.
Leiðtogar öldungadeildar Bandaríkjaþings komust í dag að að samkomulagi um fjárlagafrumvarp til næstu tveggja ára en Pelosi segist ekki geta stutt tillöguna. Vísir/Getty
Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrata í neðri deild Bandaríkjaþings, sló í dag ræðumet með rúmlega átta klukkutíma langri ræðu sinni þar sem hún mótmælti samkomulagi um fjárlög til næstu tveggja ára. Ástæðan er sú að frumvarpið tekur ekki á málefnum óskráðra innflytjenda sem hefur verið mikið hitamál í Bandaríkjunum undanfarin misseri.

Samkvæmt sagnfræðingum þingsins er ræða Pelosi sú lengsta sem vitað er um. Pelosi hóf mál sitt klukkan 10 að morgni og henni lauk um klukkan 18:10 að staðartíma. 

Leiðtogar öldungadeildar Bandaríkjaþings komust í dag að að samkomulagi um fjárlagafrumvarp til næstu tveggja ára. 

Frumvarpið þarf þó að fá samþykki beggja deilda þingsins og er talið að það verði ekki áfallalaust og hafa þingmenn beggja flokka tjáð óánægju sína með frumvarpið.

„Krafa okkar til forseta þingsins er fyrir okkur, fyrir okkur sjálf, svo við heiðrum gildi stofnenda okkar,“ sagði Pelosi meðal annars.

Frestur til að framlengja útgjöld til alríkisstofnana rennur út á morgun. Neðri deild þingsins hefur samþykkt bráðabirgðalausn til að fjármagna rekstur ríkisins eftir að fé til hans klárast á morgun.

Alríkisstjórnin hefur verið fjármögnuð með röð bráðabirgðafrumvarpa frá því að síðasta fjárlagaári lauk í lok september. Þingmönnum tókst ekki að koma sér saman um fjárlög þá. Síðan þá hefur lokun alríkisstjórnarinnar vofað yfir í hvert skipti sem þurft hefur að samþykkja nýja skammtímalausn.

Rekstur alríkisstjórnarinnar stöðvaðist að hluta til í þrjá daga í janúar þegar demókratar neituðu að samþykkja bráðabirgðalausn til að knýja á um að staða innflytjenda sem voru fluttir ólöglega til Bandaríkjanna sem börn yrði tryggð. Trump batt enda á DACA-áætlunina sem hefur varið þá fyrir brottvísun í fyrra.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×