Skoðun

Óskarsverðlaun borga sig

Björn Berg Gunnarsson og skrifa
Dýrasta kvikmynd síðasta árs var Justice League. Framleiðslukostnaður hennar var meiri en sem nemur samanlögðum kostnaði þeirra níu sem nú eru tilnefndar til Óskarsverðlauna sem besta mynd ársins. Það kemur ýmislegt áhugavert í ljós þegar bornar eru saman þær kvikmyndir sem unnið hafa þessi eftirsóttu verðlaun frá aldamótum og þær sem í var varið mestum fjármunum.

Að meðaltali hafa verðlaunamyndirnar kostað fimmtung af framleiðslukostnaði þeirra dýrustu, en skilað 60% tekna þeirra. Það borgar sig augljóslega að vinna því fyrir hverja milljón sem lagðar hafa verið í framleiðsluna bættust við 9,6 í hagnað. Dýrustu myndirnar hafa einnig skilað framleiðendum ágætis tekjum, því hagnaður hefur að meðaltali verið ríflega tvöfalt hærri en kostnaðurinn.

Ef við skiptum öldinni upp í tvö tímabil, 2000-2009 og 2010-2017, sjáum við talsverðan mun á fjármálahliðinni. Þennan áratug hafa mun smærri myndir hlotið verðlaunin, ríflega helmingi ódýrari að meðaltali. Hagnaðurinn er auk þess allt annar. Fyrri hluta aldarinnar var hagnaður Óskarsverðlaunamynda nær tvöfalt meiri en dýrustu kvikmynda ársins en undanfarin átta ár er hann einungis fjórðungur.

Kannski hefur val akademíunnar breyst, frekar en fjármálin í Hollywood. Undanfarið hafa kvikmyndir cá borð við Spotlight, Birdman og The Hurt Locker borið sigur úr býtum en fljótlega upp úr aldamótum voru það til dæmis Gladiator og Return of the King.

Svona hugleiðingar eru að sjálfsögðu bara til gamans og gefa tæplega tilefni til að spá fyrir um sigurvegara þessa árs. En ef við höfum áhuga á þeim leik virðist Three Billboards eiga ansi góðan möguleika. Get Out getur þó orðið sú sem skilað hefur langmestum hagnaði í hlutfalli við kostnað Óskvarsverðlaunamynda frá aldamótum, tvöfalt meiri en The King’s Speech.

Höfundur er fræðslustjóri Íslandsbanka.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál. 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×