Erlent

Leggja til skammtímalausn til að forðast lokun alríkisstjórnarinnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandaríkjaþing á enn ærið verk fyrir höndum ef samkomulag á að nást um framlengingu á bráðabirgðafjárlögum áður en frestur til þess rennur út á fimmtudag.
Bandaríkjaþing á enn ærið verk fyrir höndum ef samkomulag á að nást um framlengingu á bráðabirgðafjárlögum áður en frestur til þess rennur út á fimmtudag. Vísir/AFP
Frestur sem Bandaríkjaþing hefur til þess að semja um áframhaldandi framlög til alríkisstofnana rennur út á fimmtudag. Repúblikanar í neðri deild þingsins vinna nú að frumvarpi um enn eina bráðabirgðaráðstöfunina til þess að rekstur stofnana stöðvist ekki aftur eins og gerðist í janúar.

Síðasta fjárlagaár Bandaríkjastjórnar rann út í lok september. Þingmönnum tókst hins vegar ekki að samþykkja ný fjárlög vegna ágreinings um útgjöld til hernaðarmála annars vegar og innanríkismála hins vegar. Síðan þá hafa bráðabirgðafrumvörp verið samþykkt reglulega til þess að halda alríkisstjórninni gangandi.

Stofnanir lokuðu að hluta til í þrjá daga í síðasta mánuði þegar demókratar gerðu það að skilyrði fyrir að styðja frumvarp um tímabundna framlengingu fjárframlega að samið yrði um lausn fyrir innflytjendur sem fluttir voru ólöglega til Bandaríkjanna þegar þeir voru börn. Donald Trump forseti batt enda á DACA-áætlunina svonefndu sem hefur varið þá fyrir brottvísun í fyrra.

Leggja til framlengingu til 23. mars

Þá náðist samkomulag á milli repúblikana og demókrata en ráðstöfnunin sem var samþykkt þá rennur út á fimmtudag. Ekkert hefur þokast í viðræðum flokkanna um stöðu skjólstæðinga DACA eða innflytjendamál almennt.

Reuters-fréttastofan segir að meirihluti repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings séu tilbúnir með frumvarp sem framlengir útgjöld til alríkisstofnana til 23. mars. Það felur einnig í sér að fjárveitingar til herðanarmála verði tryggð út árið og til heilsugæslustöðva í tvö ár.

Meirihluti repúblikana í öldungadeildinni er hins vegar mjórri en í fulltrúadeildinni. Því er talið líklegt að gera þurfi málamiðlanir um efni frumvarpsins áður en það getur mögulega orðið að lögum áður en fresturinn rennur út.


Tengdar fréttir

Opnun alríkisstjórnarinnar komin á borð Trump

Aðeins þarf undirsskrift Bandaríkjaforseta til að rekstur alríkisstjórnarinnar geti hafist aftur. Þingið samþykkti bráðabirgðalausn um fjármögnun þess í kvöld.

Kenna Demókrötum um lokun alríkisstjórnarinnar

Bandarískum alríkisstofnunum hefur verið lokað um óákveðinn tíma þar sem ekki náðist að semja um greiðsluheimild til áframhaldandi starfsemi í öldungadeild Bandaríkjaþings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×