Í samtali við Vísi segir Gilbert að Harrington, sem hefur komið títt til Íslands við tökur Game of Thrones, hafi sagst hafa fylgst með versluninni í fjögur ár og hafi alltaf ætlað að koma við og kaupa sér úr. Hann lét svo verða að því í síðustu viku og ekki seinna en vænna því þetta er væntanlega í síðasta sinn sem tökur fyrir Game of Thrones fara fram hér á landi.
Gilbert segist kominn með tuttugu myndir af frægu fólki sem hafi keypt úr af honum á vegginn hjá sér en þó vanti einhverjar.
Harrington er hvað þekktastur fyrir að leika Jon Snow í hinum gífurlega vinsælu þáttum Game of Thrones. Hann var hér á landi í síðustu viku við tökur fyrir áttundu þáttaröð sem sýna á á næsta ári.
Tökunum er nú lokið og fóru þær, samkvæmt heimildum Vísis, fram á Suðausturlandi í grennd við Vík í Mýrdal. Tökurnar voru ekki stórar í sniðum og tóku einungis nokkra daga.