Innlent

Mikið kóf á Hellisheiði og í Þrengslum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Akstursaðstæður á Hellisheiði eru ekki upp á marga fiska.
Akstursaðstæður á Hellisheiði eru ekki upp á marga fiska. VÍSIR/VILHELM
Vegfarendur ættu að fara með gát því grjóthrun, kóf og hálka gætu sett svip sinn á akstursskilyrði í dag.

Þannig er mikið grjóthrun og leysingar á Siglufjarðarvegi, milli Fljóta og Siglufjarðar. Sömu sögu er að segja af Hvalnes- og Þvottárskriðum og biður Vegagerðin vegfarendur um að sýna fyllstu aðgát þegar farið er þar um.

Jafnframt er mikið kóf á Hellisheiði og í Þrenglsunum að sögn Vegagerðarinnar. Hálku og snjóþekju er víða vart á Suður- og Suðvesturlandi og ekki bætir éljagangur úr skák.

Á Vesturlandi er snjóþekja, hálka eða hálkublettir. Þæfingsfærð er á Holtavörðuheiði og víða éljagangur.

Sjá einnig: Gular viðvaranir og lélegt skyggni

Þá er víða hálka á Vestfjörðum, snjóþekja og éljagangur. Þæfingsfærð er á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum, Svínadal og á Klettshálsi.

Greiðfært eða hálkublettir eru á helstu leiðum austantil á Norðurlandi. Snjóþekja er á Vatnsskarði og Þverárfjalli og þar vestar. Éljagangur er í Eyjafirði.

Á Austurlandi er að sama skapi víða greiðfært en hált er nokkrum vegum á Héraði. Greiðfært er með austanverðri Suðausturströndinni en hálka vestan Lómagnúps. Sólheimajökulsvegur (221) er ófær vegna vatnavaxta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×