Innlent

Gróðrarstöð vill ekki skuggavarp og kærir Hveragerðisbæ

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Borg er aftan við lóðina þar sem Eden stóð.
Borg er aftan við lóðina þar sem Eden stóð. vísir/pjetur
Eigendur gróðrar- og garðplöntusölunnar Borgar hafa kært Hveragerðisbæ vegna nýs deiliskipulags sem gerir ráð fyrir fjölbýlishúsum á Edenreitnum svokallaða.

Í kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er vitnað til umsagnar um áhrif skuggavarps sem eigendur Borgar fengu frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. „Matsgerðin tók það skýrt fram að fyrirhugaðar byggingar myndu hafa veruleg áhrif á vaxtarskilyrði plantna og þar með draga úr nýtingu núverandi svæðis með tilliti til framleiðslu á garðplöntum og rýra því bæði framleiðslumöguleika stöðvarinnar eins og nýtingu er nú háttað og verðgildi stöðvarinnar í heild.“

Er breytingin á skipulagi Edenlóðarinnar var enn ófrágengin féllst bærinn á að fyrirhugað hús yrði lækkað úr þremur hæðum í tvær. Eigendur Borgar segja það litlu breyta. Þrjú tveggja hæða fjöleignarhús alveg við lóðarmörkin muni valda verulegum skugga á lóð þeirra.

Hveragerðisbær segir hins vegar að skuggavarp yfir lóð Borgar sé frekar lítið nema í mars klukkan fimm eftir hádegi. Eigendurnir segja ekkert að finna í skýringaruppdráttum sem styðji þetta. „Þessi fullyrðing virðist því vera sett fram algjörlega út í bláinn,“ segir í kærunni. Bærinn hafi á engan hátt rannsakað áhrif nýju húsanna á umhverfið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×