Lífið

Lady Gaga aflýsir tíu tónleikum vegna veikinda

Þórdís Valsdóttir skrifar
Lady Gaga kom fram á Grammy verðlaunahátíðinni í síðasta mánuði.
Lady Gaga kom fram á Grammy verðlaunahátíðinni í síðasta mánuði. Vísir/getty
Söngkonan Lady Gaga hefur aflýst tíu tónleikum á tónleikaferðalagi sínu vegna veikinda. Hún segir á Twitter að hún finni fyrir „miklum sársauka“ og að hún sé harmi slegin yfir því að þurfa að aflýsa tónleikunum.

Lady Gaga þjáist af vefjagigt sem er langvinnur sjúkdómur sem leggst á bandvef líkamans. Aukið verkjanæmi og þreyta eru ein af algengustu einkennum vefjagigtar.

Söngkonan góðkunna gaf út yfirlýsingu á Twitter þar sem hún segir að ákvörðun hafi verið tekin um að aflýsa tónleikunum. Læknar Lady Gaga studdu þessa ákvörðun heilshugar. „Ég er svo miður mín að ég get ekki lýst því. Það eina sem ég veit er að ef ég geri þetta ekki þá er ég ekki að standa við orðin og merkingu tónlistar minnar,“ segir Lady Gaga.

„Hún er miður sín og gífurlega leið yfir því að hún geti ekki troðið upp fyrir evrópsku aðdáendur sína, sem hafa beðið þolinmóðir,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá kemur einnig fram að læknar hennar reyni allt sem þeir geta til þess að gera henni kleift að halda áfram að koma fram í mörg ár enn.

Þeir tíu tónleikar sem hún átti eftir af Evrópu hluta tónleikaferðalagsins Joanne áttu að vera í London, Manchester, Zurich, Köln, Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, París og Berlín. Þeir sem áttu miða á tónleikana geta fengið miðana endurgreidda frá og með þriðjudeginum 6. febrúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×