Innlent

Brotaþolar fá eingöngu aðgang að eigin gögnum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sigrún Jóhannsdóttir, réttargæslumaður kæranda
Sigrún Jóhannsdóttir, réttargæslumaður kæranda
Brotaþola í kynferðisafbrotamáli hefur bæði af lögreglu og héraðssaksóknara verið synjað um aðgang að gögnum máls hennar. Réttargæslumaður stúlkunnar telur synjunina afar þrönga lagatúlkun og í andstöðu við hagsmuni brotaþola.

Málið var til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári. Undir lok rannsóknarinnar óskaði réttargæslumaðurinn eftir öllum gögnum sem varða skjólstæðing hennar. Henni var afhent afrit af læknisvottorði skjólstæðings síns sem og kæruskýrslu hans. Synjað var um afrit af öðrum gögnum.

Að rannsókn lokinni var málið sent til héraðssaksóknara og var beiðnin þá ítrekuð. Fékk brotaþoli þá aðgang að kærunni, gögnum sem hún hafði sjálf lagt fram og vottorðum sem hana varða.

„Við fáum sumsé aðeins aðgang að þeim gögnum sem við höfum nú þegar lagt fram sjálf. Mér þykir þetta undarlegt,“ segir Sigrún Jóhannsdóttir, réttargæslumaður konunnar.

Sigrún segir að hún skilji synjunina þegar svo ber undir að rannsókn standi enn yfir og það geti spillt rannsóknarhagsmunum.

Í þessu tilfelli hafi rannsókn hins vegar verið lokið. Þá hafi aðeins verið óskað eftir gögnum sem snúa að meintu broti gegn skjólstæðingi hennar.

„Ég tel að þessi túlkun sé afar þröng og geti verið í andstöðu við hagsmuni brotaþola. Í dag mætir brotaþoli og gefur skýrslu hjá lögreglu og fær svo lítið sem ekkert að vita fyrr en um það bil tveimur árum síðar, þegar honum berst ákvörðun um ákæru eða niðurfellingu.

Þegar sú ákvörðun hefur verið tekin fær brotaþoli strax aðgang að öllum gögnum. Við getum því ekki talað um að afhending á fyrri stigum geti dregið úr trúverðugleika brotaþola fyrir dómi. Þá getur hann kært niðurfellinguna eftir að hann fær gögnin og þannig haft möguleg áhrif á málið, það er, sé það endurupptekið.

Hefði brotaþoli einhvers konar aðgengi að gögnunum áður en ákvörðunin er tekin gæti hann bent á augljósar staðreyndavillur og stoppað í göt málsins. Það er meira en að segja það að ætla brotaþola að upplýsa um öll möguleg og ómöguleg smáatriði í einni skýrslutöku. Öll martröðin rakin á einum til tveimur klukkustundum – og brotaþoli jafnan stressaður, hræddur og illa á sig kominn. Allt lagt undir. Eru það ekki fullmiklar kröfur að gera?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×