Innlent

Kolmunnakvóti Íslands 293 þúsund tonn

Atli Ísleifsson skrifar
Kristján Þór Júlíusson er sjávarútvegsráðherra.
Kristján Þór Júlíusson er sjávarútvegsráðherra. Vísir/Stefán
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í dag gefið út reglugerð um togveiðar íslenskra skipa á kolmunna árið 2018. Hlutur Íslenda verður 293 þúsund tonn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

„Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) ráðlagði síðastliðið haust að hámarksveiði á kolmunna á þessu ári skyldi ekki vera umfram 1.387.872 tonn og var það viðmið samþykkt af öllum hlutaðeigandi strandríkjum.

Reglugerðin kveður á um að hlutur Íslands verði 293 þúsund tonn, sem nemur 21,1% af ráðlögðum heildarafla. Samkvæmt eldri kolmunnasamningi, sem ekki er lengur virkur, hafði Ísland 16,23% hlutdeild í heildaraflamarki. Aukningin í 21,1% endurspeglar vegið meðaltal á þeirri aukningu sem önnur strand- og veiðiríki hafa tekið sér í ár.

Þá kveður reglugerðin á um að a.m.k. 25% af kolmunnaveiði íslenskra skipa skuli fara fram í íslenskri lögsögu eða á alþjóðahafsvæði, en Ísland og Færeyjar hafa með sér samning um gagnkvæman aðgang að lögsögum til kolmunnaveiða,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×