Erlent

Utanríkisráðherra Rússlands gefur lítið fyrir ákærurnar

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússalands, var meðal ræðumanna á öryggisráðstefnu í Þýskalandi í dag.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússalands, var meðal ræðumanna á öryggisráðstefnu í Þýskalandi í dag. Vísir/AFP
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði á öryggisráðstefnu í München í dag að hann myndi ekki tjá sig um ákærur á hendur þrettán Rússum vegna afskipta af forsetakosningunum árið 2016 í Bandaríkjunum fyrr en hann hefði séð allar staðreyndir málsins. BBC greinir frá.

Þrátt fyrir það sagði utanríkisráðherrann jafnframt að ákærurnar væru þvættingur og að varaforseti Bandaríkjanna drægi ágæti rannsóknarinnar í efa.

Þrettán rússneskir ríkisborgarar og þrír rússneskir lögaðilar hafa verið ákærðir fyrir að hafa haft afskipti af kosningum í Bandaríkjunum og framgangi lýðræðis þar í landi. Því er haldið fram að Rússarnir hafi notast við falskar Facebook-færslur og auglýsingar til að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir í Bandaríkjunum á meðan kosningabaráttu stóð á milli Donald Trump, frambjóðanda Repúblikana, og Hillary Clinton, frambjóðanda Demókrata, um embætti forseta Bandaríkjanna árið 2016.

Í yfirlýsingu frá forsetaembætti Bandaríkjanna í gær kom fram að Trump hefði fengið skýrslu um málið og að hann sé glaður að rannsókn Roberts Mueller, sérstaks saksóknara dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, á afskiptum af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016 gefi enn frekar til kynna að forsetaframboð Trumps var ekki í neinu samráði við Rússa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×