Innlent

Sif telur ráðherrann sinn ekki vanhæfan

Sveinn Arnarsson skrifar
Frá Öxnadal. Blöndulína þrjú á að liggja í hlíðinni ofan við Hóla í Öxnadal við hlið gamallar byggðalínu sem fyrir er.
Frá Öxnadal. Blöndulína þrjú á að liggja í hlíðinni ofan við Hóla í Öxnadal við hlið gamallar byggðalínu sem fyrir er. VÍSIR/VILHELM
Friðun jarðarinnar Hóla í Öxnadal hefur verið send frá Umhverfisstofnun til Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra til staðfestingar. Sif Konráðsdóttir, aðstoðarmaður ráðherrans, á persónulegra hagsmuna að gæta í málinu þar sem hún er eigandi jarðarinnar ásamt maka sínum.

Sif hefur ásamt eiginmanni sínum Ólafi Valssyni stundað skógrækt og ýmislegt fleira á jörðinni, sem er í Öxnadal, gegnt Hraundranga, sem er eitt frægasta kennileiti Norðurlands. Þau hafa farið fram á að jörðin verði friðlýst og er friðlýsingin nú á borði ráðherra.

Ástæður þess að þau fara fram á friðlýsingu er meðal annars til að torvelda lagningu Blöndulínu 3 sem á að fara yfir jörð þeirra. Hafa þau kært og gert athugasemdir við lagningu línunnar allt frá 2013.

Sif Konráðsdóttir er aðstoðarmaður umhverfisráðherra.Vísir/HARI
Fyrir liggur að Landsnet hefur frá 2008 haft á teikniborðinu að leggja Blöndulínu 3, frá Blöndu til Akureyrar, til að styrkja flutningskerfi raforku.

Gamla byggðalínan ber ekki nægilega raforku til Eyjafjarðar þar sem stór fyrirtæki hafa þurft að keyra á steinolíu þegar taka þarf af þeim rafmagn vegna truflana í kerfi Landsnets. Háværar raddir eru uppi um að efla þurfi byggðalínuna og raforkuöryggi í Eyjafirði.

Nú er friðun Hóla á borði ráðherra og þarf Guðmundur að taka afstöðu til þess hvort hann skrifi upp á friðlýsingu lands í eigu aðstoðarmanns síns.

„Þetta mál hefur ekki verið tekið fyrir eftir að ég kom inn í ráðuneytið. Ég hef ekki farið yfir það en í svona málum er hvert mál metið. Ef einhverjar líkur eru á vanhæfi eða ástæða þykir til að skoða vanhæfi þá mun stjórnsýslan fara yfir það,“ segir Guðmundur.

Sif segir í samtali við blaðið að hún telji ráðherra ekki vanhæfan til að taka ákvörðun um friðlýsingu svæðisins þó undirmaður hans, hún í þessu tilviki, hafi barist fyrir því að jörðin verði friðuð til að koma í veg fyrir lagningu línunnar.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er dregið fram að tryggja þurfi afhendingaröryggi raforku á öllu landinu og er Blöndulínu 3 ætlað að tryggja orku inn á Eyjafjarðarsvæðið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×