Lífið

Darren Aronofsky „eyðilagður“ yfir andláti Jóhanns

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Darren Aronofsky er einn virtasti kvikmyndaleikstjóri í heimi.
Darren Aronofsky er einn virtasti kvikmyndaleikstjóri í heimi. Vísir/Getty
Leikstjórinn og Íslandsvinurinn Darren Aronofsky segist „eyðilagður“ yfir andláti tónskáldsins Jóhanns Jóhannssonar. Aronofsky og Jóhann störfuðu saman við kvikmyndina mother! í fyrra.

Í færslu á Twitter-reikningi sínum deilir Aronofsky, sem er einn virtasti kvikmyndaleikstjóri síðari ára, tísti rit- og teiknimyndasöguhöfundarins Warren Ellis, sem tjáði sig einnig um andlát Jóhanns. Með tístinu skrifar Aronofsky einfaldlega „devastated“, eða „eyðilagður“ upp á íslensku.



Sjá einnig: Þúsundir minnast Jóhanns á samfélagsmiðlum

Aronofsky og Jóhann störfuðu saman við nýjustu kvikmynd þess fyrrnefnda, mother!. Samstarf þeirra var afar farsælt, samkvæmt ítarlegri úttekt Indiwire, þó að þeir hafi að endingu ákveðið að nota ekki tónlistina sem Jóhann var búinn að semja fyrir myndina.

„Við kvikmyndina mother! dugar ekkert hálfkák og eftir að við Darren höfðum skoðað ýmsa möguleika sagði innsæið mér að sleppa algjörlega takinu af tónlistinni,“ sagði Jóhann um ferlið á sínum tíma.

„Stór hluti af sköpunarferlinu er að sleppa taki af hugmyndum og í þessu tilfelli vissum við að við þyrftum að nálgast þetta með þessum hætti.“

Jóhann Jóhannsson tónskáld.Vísir/Getty
Jóhann Jóhannson fannst látinn á heimili sínu í Berlín í gærkvöldi, 48 ára að aldri. Hann hlaut Golden Globe verðlaunin fyrir tónlistina í kvikmyndinni The Theory of Everything og var hann auk þess tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir tónlistina í myndinni Sicario. Árið 2016 var hann tilnefndur til Bafta og Grammy-verðlauna fyrir tónlistina í myndinni The Arrival.

Fjölmargir hafa minnst Jóhanns á samfélagsmiðlum í dag en ljóst er að hann hefur snert strengi í hjörtum fólks með tónlist sinni.

Darren Aronofsky er einn virtasti kvikmyndaleikstjóri í heimi en hann á baki myndir á borð við Requiem for a Dream, Black Swan og Noah sem var einmitt tekin að hluta til hér á landi. Þá hlaut hann heiðursverðlaun RIFF árið 2016.


Tengdar fréttir

Darren Aronofsky mætir á RIFF

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, RIFF, hefst í næstu viku en þetta er í 13. sinn sem hún er haldin. Von er á fjölmörgum erlendum gestum hingað til lands í tengslum við hátíðina þar á meðal kvikmyndaleikstjóranum Darren Aronofsky.

Jóhann Jóhannsson látinn

Jóhann Jóhannsson tónskáld er látinn. Fannst hann látinn á heimili sínu í Berlín í gær






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.