Innlent

Formannafundur ASÍ hafinn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá upphafi fundarins í morgun.
Frá upphafi fundarins í morgun. vísir/heimir már
Formannafundur aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands er hafinn á Hilton Nordica. Á fundinum fer fram leynileg rafræn atkvæðagreiðsla um uppsögn kjarasamninga og gildir þar að til að mynda meirihluta þarf bæði meirihluta þeirra fundarmanna sem fara með atkvæði á fundinum og meirihluta þess atkvæðavægis sem að baki þeim standa.

Hófst fundurinn klukkan 11 og er gert ráð fyrir að hann standi til klukkan 15 í dag. Frestur til uppsagnar kjarasamninga rennur svo út klukkan 16. Stjórnar- og trúnaðarráð VR samþykkti samhljóða á fundi sínum í gærkvöldi að forsendur kjarasamninga séu brostnar og því verði að segja þeim upp. Þá hafa fimm önnur aðildarfélög ASÍ einnig lýst því yfir að þau vilji segja upp samningum, eins og fram kemur í frétt RÚV.

Það er því komið að ögurstundu í kjaramálum en samningarnir snúa að um hundrað þúsund starfsmönnum á almenna vinnumarkaðnum, en fyrir viku sagði ASÍ að sambandið teldi forsendur kjarasamniganna brostna.

Þó væri enn tími fyrir stjórnvöld til að grípa inn í og í gær kynnti Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, verkalýðshreyfingunni tillögur stjórnarinnar á fundi síðdegis í gær. Í þeim er meðal annars kveðið á um hækkun atvinnuleysisbóta og endurskoðun á tekjuskattskerfinu en hvort þessar aðgerðir dugi til að höggva á hnútinn kemur í ljós síðdegis í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×