Skoðun

Lífið, litlu börnin og kjör almennings

Guðríður Arnardóttir skrifar
Árið 1998 voru 40,3% leikskólabarna hér á landi að meðaltali átta tíma eða lengur í leik-skóla, en árið 2016 var meðaltalshlutfallið komið í 87,3%. Skýrsla Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) frá 2016 vitnar um met Íslendinga í dvalartíma leikskólabarna í leikskólum, bæði í dagafjölda og klukkutímum.

Hér á landi er næstum því þrefalt algengara að börn á leikskólaaldri fái tauga- og geðlyf en í Noregi, Danmörku og Svíþjóð.

Er það svona sem við viljum búa að börnunum okkar? Samvera barns með foreldrum sínum sem eyðir þetta löngum tíma í leikskóla er lítil og væntanlega bitnar þreyta barnsins og annarra í fjölskyldunni á gæðum samverunnar.

Lífið er núna. Við eigum að njóta barnanna okkar á meðan þau eru lítil. Ekkert er betra fyrir lítið barn en gæðastundir með fjölskyldunni. Það fylgir því álag fyrir lítil kríli að eyða öllum deginum innan veggja skólans í allt of litlu rými þar sem hljóðvist er yfir öllum eðlilegum mörkum.

Það er ekki langsótt að ætla að þessi líðan barna tengist að einhverju leyti aðstæðum þeirra. Lífstíll og láglaunastefna hefur væntanlega orðið til þess að börn eru þetta lengi í leikskóla og reyndar á þetta við um grunnskólann líka.

Nú þegar rætt er um forsendur kjarasamninga – um kjör og aðbúnað almennings megum við ekki gleyma þeim sem mestu máli skipta. Börnunum okkar. Hluti af því að búa betur að börnunum okkar er að stytta vinnudaginn og þannig fjölga samverustundum fjölskyldunnar. Það er mál sem samfélagið allt þarf að taka höndum saman um og þar hlýtur verkalýðshreyfingin að fara fremst í flokki.

Höfundur er formaður Félags framhaldsskólakennara.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×