Skoðun

Sameiginlegur fjárhagur?

Björn Berg Gunnarsson skrifar
Skipting lífeyrisiðgjalda er stórt hagsmunamál og ætti að vera meira í umræðunni, einkum hjá ungu fólki. Í stuttu máli er sambúðarfólki heimilt að láta allt að helming iðgjalda sinna renna til maka, en báðir aðilar þurfa að skipta sama hlutfalli. Gildir þetta bæði um samtryggingu og séreign.

Barneignir eru gott tilefni til að velta þessu fyrir sér. Algengt er að annar makinn taki lengra fæðingar­orlof en hinn og jafnvel launalaust leyfi að auki. Þar sem minna eða jafnvel ekkert er þá greitt í lífeyrissjóð er viðkomandi að fórna framtíðarréttindum. Því yngri sem við erum, því þyngra vegur það. Er sanngjarnt að ákvörðun um að vera heima með börnum bitni á réttindum á lífeyris­aldri?

Þrátt fyrir að fjárhagur sambúðarfólks sé oft sameiginlegur eru lífeyrisréttindi það ekki. Sé mikill munur á réttindum sambúðarfólks eða hjóna er staða þeirra mjög ólík þegar annað hvort þeirra fellur frá eða við skilnað. Falli sá frá sem betri réttindi hefur á maki rétt á ákveðnum makalífeyri, sem er misjafn milli lífeyrissjóða og í flestum tilvikum einungis greiddur í nokkur ár. Það er því ótvírætt meira öryggi fólgið í jöfnun lífeyrisréttinda.

Þótt lífeyrismál séu ef til vill leiðin­leg og ungt fólk sýni þeim sama og engan áhuga sýnist mér þetta vekja marga til umhugsunar, nema vinir mínir séu bara að vera kurteisir og þykjast hafa áhuga þegar ég tala um lífeyri. En fæstir virðast þó hafa heyrt af þessum möguleika. Heimild til skiptingar lífeyrisiðgjalda og -réttinda er sanngirnismál sem er gott fyrir sem flesta að þekkja.

Höfundur er fræðslustjóri ­Íslandsbanka 




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×