Erlent

Loftárásir á Ghouta þrátt fyrir vopnahlé

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Gerðar voru loftárásir á Ghouta héraðið í útjaðri Damaskus í gær og í morgun þrátt fyrir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi í gær samþykkt þrjátíu daga vopnahlé í Sýrlandi.
Gerðar voru loftárásir á Ghouta héraðið í útjaðri Damaskus í gær og í morgun þrátt fyrir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi í gær samþykkt þrjátíu daga vopnahlé í Sýrlandi. Vísir/Getty
Mannúðarsamtök áætla að meira en 500 manns hafi fallið í loftárásum Sýrlandshers á Ghouta héraðið í Damaskus í vikunni en þetta eru mannskæðustu árásir frá því stríðið í Sýrlandi hófst fyrir sjö árum.

Gerðar voru loftárásir á Ghouta héraðið í útjaðri Damaskus í gær og í morgun þrátt fyrir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi í gær samþykkt þrjátíu daga vopnahlé í Sýrlandi.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti vopnahlé einróma á fundi sínum á áttunda tímanum í gærkvöldi að íslenskum tíma. Ályktun ráðsins um vopnahlé í þrjátíu daga var samþykkt eftir nær linnulausar loftárásir Sýrlandshers á Ghouta úthverfið í Damaskus í vikunni en þetta eru mannskæðustu árásir í borgarastríðinu í Sýrlandi frá því það hófst fyrir sjö árum.

Vopnahlé átti að taka gildi þegar í stað en vef Guardian segir að óvíst sé hversu lengi það vari eða hvort það verði yfirleitt virt. Nokkrum mínútum eftir að ályktun um vopnahlé var samþykkt í öryggisráðinu var greint frá því að herþotur Sýrlandshers hefðu gert loftárásir á Ghouta. Þá vöknuðu íbúar í nokkrum bæjum austurhluta Ghouta við loftárásir í morgun að því fram kemur á fréttavef Reuters.

Samtökin Syrian Observatory for Human Rights áætla að meira en 500 manns hafi látist í loftárásum á Ghouta í vikunni og að á meðal látinna séu konur og börn. Samtökin Læknar án landamæra telja að 520 hafi látist í árásunum sem hafa meðal annars beinst að sjúkrahúsum.

Ályktun öryggisráðsins um vopnahlé nær til alls Sýrlands nema þeirra svæða þar sem hernaðaraðgerðir standa yfir gegn hryðjuverkasamtökunum ISIS, Al-Nusra og hópum sem tengjast Al Qaeda að því er fram kemur í New York Times. Markmiðið er að tryggja mannúðaraðstoð á stríðshrjáðum svæðum og koma særðum undir læknishendur.

Atkvæðagreiðsla frestaðist dögum saman í öryggisráðinu því Rússar gerðu ágreining um orðalag í ályktuninni. Hefur þessi dráttur á atkvæðagreiðslu verið harðlega gagnrýndur. Meðal annars af Nikki Haley sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum og Stephen Hickey fulltrúa Bretlands í öryggisráðinu.


Tengdar fréttir

Hryllingurinn heldur áfram í Sýrlandi

Sprengjum rigndi enn á íbúa Austur-Ghouta í gær og fórust tugir. Öryggisráðið ræðir um þrjátíu daga vopnahlé. Stríðið í Sýrlandi verður sífellt flóknara og fleiri aðilar dragast inn í átökin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×