Erlent

Stórfyrirtæki yfirgefa hagsmunasamtök byssueigenda eftir skotárásina á Flórída

Kjartan Kjartansson skrifar
NRA eru stærstu samtök skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum. Tveir talsmenn þeirra fluttu eldræður á CPAC-ráðstefnunni á fimmtudag.
NRA eru stærstu samtök skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum. Tveir talsmenn þeirra fluttu eldræður á CPAC-ráðstefnunni á fimmtudag. Vísir/AFP
Flugfélögin Delta og United Airlines eru nýjustu fyrirtækin sem hafa ákveðið að rifta samstarfi sínu við NRA, stærstu hagsmunasamtök skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum í kjölfar mannskæðrar skotárásar í framhaldsskóla á Flórída í síðustu viku.

Bæði flugfélögin sögðu að þau myndu ekki lengur bjóða félögum NRA afsláttarkjör á flugferðum á árlega fundi samtakanna og hafa beðið þau um að fjarlægja vísarnir til sín á vefsíðu þeirra. Bílaleigan Hertz tók sömu ákvörðun fyrr í vikunni, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar.

Fulltrúar NRA hafa barist hatrammlega gegn öllum hugmyndum um að herða skotvopnalöggjöfin í Bandaríkjunum. Eftir skotárásina í Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum á Flórída á Valentínusardag sem kostaði sautján ungmenni lífið hafa samtökin meðal annars lagst gegn hugmynd ríkisstjóra Flórída um að hækka lágmarksaldur þeirra sem geta keypt hríðskotariffla eins og morðinginn notaði.

Þess í stað hafa þau lýst stuðningi við hugmynd Donalds Trump forseta um að vopna kennara til að fyrirbyggja skotárásir. Talsmaður samtakanna fordæmdi þá „sósíalista“ sem vildu herða byssulöggjöfina í ræðu á ráðstefnu íhaldsmanna í Bandaríkjunum á fimmtudag. Tilgangur þeirra sem það vildu væri að afnema allt einstaklingsfrelsi.

Mikil umræða um skotvopn hefur blossað upp í Bandaríkjunum eftir blóðbaðið á Flórída. Nemendur skólans sem lifðu árásina af hafa orðið að ötulum talsmönnum fyrir hertum lögum og reglum um byssueign.


Tengdar fréttir

Lifði af skotárásina og þjarmaði að þingmanni í sjónvarpssal

Cameron Kasky, einn þeirra nemenda Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólans sem hafa verið hvað háværastir í baráttu sinni fyrir hertri byssulöggjöf í Bandaríkjunum, gekk hart að öldungardeildarþingmanninum og Repúblikananum Mark Rubio í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×