Sérsveit ríkislögreglustjóra hefur tekið bensínstöð N1 við Ægisíðu yfir sem aðgerðastöð vegna umfangsmikillar lögregluaðgerðar sem stendur yfir á svæðinu. Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, staðfestir þetta í samtali við Vísi. Hann segist engar frekari upplýsingar hafa fengið um málið.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu til blaðamanns á staðnum leikur grunur á að fólk sé vopnað. Að minnsta kosti einn sérsveitarmaður er vopnaður riffli, tilbúinn að bregðast við.
Þrír starfsmenn eru á N1-stöðinni og hefur þeim verið bannað að fara út á meðan aðgerðinni stendur. Samkvæmt upplýsingum Vísis hefur því verið beint til starfsfólks Ægisborgar, leikskóla við Ægisíðu, um að börnin fari ekki út að óþörfu á meðan á aðgerðum stendur. Að öðru leyti er þó allt eðlilegt í starfi leikskólans. Þá hefur starfsfólki veitingastaðarins Borðsins við Ægisíðu verið sagt að halda sig innandyra.

