Magnús M. Norðdahl, formaður kjörstjórnar Eflingar, segir að strax við opnun í gærmorgun hafi verið mikið að gera. „Svo er opið til átta í kvöld og ég á von á að það verði mikið seinnipartinn líka.“ Aðspurður segir Magnús þó engar biðraðir hafa myndast.
Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem formannskjör fer fram í félaginu. Í framboði til formanns eru Ingvar Vigur Halldórsson, sem leiðir A-lista stjórnar og trúnaðarráðs, og Sólveig Anna Jónsdóttir, sem leiðir mótframboð B-lista.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur ekki farið leynt með stuðning sinn við Sólveigu og beri hún sigur úr býtum eru það mikil tíðindi fyrir Alþýðusamband Íslands (ASÍ), enda fara þessi stóru félög með meirihluta í ASÍ. Litlir kærleikar hafa verið með þeim Ragnari Þór og Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ.
Greiðendur í Eflingu á síðasta ári voru rétt undir 25 þúsundum en rúmlega 16 þúsund manns eru á kjörskrá og að sögn Magnúsar er nokkuð um að menn hafi þurft að kæra sig inn á kjörskrá frá því að kosning hófst. Helst er um þá að ræða sem greiða í félagið en hafa ekki sótt um fulla aðild.
Þegar fréttamann og ljósmyndara bar að garði upp úr hádegi í gær var stöðugur straumur af fólki inn og út af kjörstað. Allir sem rætt var við sögðust hafa fylgst með kosningabaráttunni og að stjórnarkjörið væri töluvert rætt á vinnustöðum þeirra. Við spurðum hvers félagsmenn væntu af nýrri stjórn.
