Alþingi kýs nýjan ríkisendurskoðanda í næsta mánuði. Frestur til að skila tilnefningum til forsætisnefndar rann út 24. febrúar en ekki fæst uppgefið hverjir eru tilnefndir.
„Þetta er ekki alveg eins og ráðningarferli í kjölfar auglýsingar um stöðu, því þetta var ekki auglýst sem starf,“ segir Steingrímur J Sigfússon, forseti Alþingis. „En við vildum að sjálfsögðu hafa þetta opið og sendum tilkynningu um að fyrir dyrum standi að kjósa ríkisendurskoðanda, að áhugasamir geti gefið sig fram og aðrir komið með ábendingar um æskilega menn.“
Steingrímur segir óvíst að nafnalisti verði birtur enda sambland af yfirlýsingum um áhuga á starfinu og ábendingum um heppilega menn.
Aðspurður segir Steingrímur nöfn þeirra sem til greina komi ekki mörg. „Auglýsingin vakti ekkert mjög mikil viðbrögð og satt best að segja átti ég von á fleirum,“ segir hann.
Að sögn Steingríms er engin hefð fyrir því hér að einstaklingur með fortíð úr stjórnmálum sé valinn í þetta embætti.

Fráfarandi ríkisendurskoðandi tekur í sama streng. Ekki sé heppilegt að hafa einstakling úr stjórnmálalífinu. Þá segir Sveinn aðspurður að viðhorf forstöðumanna ríkisstofnana til Ríkisendurskoðunar og ábendinga hennar hafi breyst.
„Þeir hafa nánast alveg hætt að líta á ábendingar sem persónulegar árásir á sig og sitt starf. Það er liðin tíð, en það var alveg greinilegt þegar við byrjuðum á þessu að þá litu menn svo á,“ segir Sveinn og játar því að gagnrýni ríkisendurskoðunar á ríkisstofnanir sé vandmeðfarin.
„Ábendingar okkar eru miklu nákvæmari og beinskeyttari en áður og þannig er auðveldara að mæla hvort þeim hefur verið fylgt eftir.“
Sveinn hefur verið tíu ár í embætti en lætur nú af störfum vegna aldurs. „Maður fer eitthvað að hugsa sinn gang og sjá hvort það er ekki eitthvað um að vera handan skrifstofuveggjanna.“