Erlent

Tveggja ára stúlka lést eftir að spegill féll á hana í skóbúð

Þórdís Valsdóttir skrifar
Verslunarkeðjan Payless Shoe Source var stofnuð árið 1956 og á voru verslanirnar 400 talsins þegar hæst stóð. Fyrirtækið lýsti sig gjaldþrota á síðast ári.
Verslunarkeðjan Payless Shoe Source var stofnuð árið 1956 og á voru verslanirnar 400 talsins þegar hæst stóð. Fyrirtækið lýsti sig gjaldþrota á síðast ári. Vísir/getty
Tveggja ára stúlka lést í Atlanta-ríki í Bandaríkjunum á föstudag eftir að spegill í skóversluninni Payless Shoe Source féll á hana. Washington Post greinir frá þessu.



Hin tveggja ára Ifrah Siddique var í verslunarleiðangri með fjölskyldu sinni á föstudagskvöld, þar sem versla átti skó á stúlkuna. Fjölskylda hennar sagði í samtali við dagblaðið Atlanta Journal-Constitution að stúlkan hafi verið að skoða sig um nálægt stórum spegli í versluninni þegar spegillinn féll skyndilega á hana. Spegillinn var ekki veggfastur og því óöruggur og steyptist um koll.

Stúlkan var með miklar innvortis blæðingar og hafði misst mikið blóð þegar sjúkraflutningamenn komu á slysstað. Hún lést stuttu síðar á nærliggjandi sjúkrahúsi.

Talsmenn verslunarkeðjunnar Payless Shoe Source gáfu út yfirlýsingu vegna málsins og sögðust vinna með lögregluyfirvöldum við rannsókn málsins

„Við sendum fjölskyldu Ifrah Siddique okkar dýpstu samúðarkveðjur vegna þessa gríðarlega missis. Við erum niðurbrotin vegna þessa hræðilega atviks og erum að vinna með lögregluyfirvöldum við að rannsaka og skilja hvernig slysið átti sér stað. Af virðingu við fjölskylduna munum við ekki láta í té frekari upplýsingar um málið,“ segir í yfirlýsingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×