Bandaríkin Viðskiptastríð eru góð fyrir almenning og það er auðvelt að vinna þau. Þetta sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, í gær þegar hann brást við ósætti annarra ríkja við ákvörðun forsetans um að setja 25 prósenta innflutningstoll á stál og tíu prósent á ál.
„Við verðum að vernda landið okkar og verkamennina okkar. Stáliðnaðurinn okkar er í slæmu standi. EF ÞÚ ERT EKKI MEÐ STÁL ERTU EKKI MEÐ RÍKI,“ tísti forsetinn. Jafnframt sagði hann að ekki væri skynsamlegt að leggja tolla á innfluttar vörur þegar önnur ríki legðu tolla á vörur sem fluttar eru þangað frá Bandaríkjunum.
Trump sagði aukinheldur að þar sem Bandaríkin væru með milljarða dala viðskiptahalla gagnvart nærri hvaða ríki sem er væri þörf á viðskiptastríði.
„Til dæmis, þegar við erum með hundrað milljarða dala viðskiptahalla gagnvart ákveðnu landi ættum við að hætta þeim viðskiptum. Við vinnum stórsigur. Það er auðvelt!“
Yfirvöld bæði í Kanada og Evrópusambandinu hafa nú þegar tilkynnt um að ráðist verði í gagnaðgerðir af einhverju tagi. Þá eru Mexíkó, Kína og Brasilía að velta fyrir sér að gera slíkt hið sama.
Theo Leggett, fréttaskýrandi BBC, var í gær ósammála fullyrðingu forsetans. „Ef viðskiptastríð væru í raun og veru góð og það væri auðvelt að vinna þau væri Alþjóðaviðskiptastofnunin ekki til,“ sagði í skýringu Leggetts. Flestar þjóðir teldu ákjósanlegra að semja um ágreiningsmál. Verndarstefna gæti skaðað alla hlutaðeigandi aðila.
Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, sagði í gær að ákvörðun Trumps væri óásættanleg.
„Bandaríkin þurfa að átta sig á því að ef þau fylgja þessu eftir mun Evrópusambandið svara því á samhæfðan hátt. Einhliða aðgerð sem þessi er óásættanleg. Slíkar aðgerðir gætu haft mikil og varanleg áhrif á evrópskt hagkerfi.“
Talsmaður breska forsætisráðuneytisins sagði Bretlandsstjórn nú ræða við Trump um hvað fælist í aðgerðunum.
„Við höfum sérstakar áhyggjur af því hvernig þetta gæti bitnað á breskum ál- og stáliðnaði.“
