Erlent

Geta ekki allir fengið allt

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/Epa
Það geta ekki allir aðilar fengið allt sem þeir vilja í samningaviðræðum Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu Bretlands, svokallað Brexit. Þetta sagði Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í ræðu í Lundúnum í gær. Sagði May jafnframt að þótt viðræðurnar væru vissulega erfiðar væri það öllum í hag að komast að góðri niðurstöðu og að stutt væri í að samkomulag um aðlögunarferlið næðist.

Á meðal þess sem kom fram í ræðu forsætisráðherrans var að Bretland væri vissulega á leiðinni út af innri markaði Evrópusambandsins. Það myndi breyta ýmsu í daglegu lífi Breta. Ítrekaði May þar afstöðu sína með svokölluðu „hörðu Brexit“ en ýmsir úr Íhaldsflokki May sem og flestir úr öðrum flokkum vilja heldur „mjúkt Brexit“ sem felur í sér áframhaldandi veru á innri markaðnum og í tollabandalaginu.

Í ljósi hins harða Brexit munu Bretar þurfa að komast að samkomulagi við ríki ESB um fríverslunarsamninga og sagði May að þeir þyrftu að vera sanngjarnir og með ákveðnum skuldbindingum. „Við gætum til að mynda valið að innleiða Evrópureglugerðir á ýmsum sviðum stjórnsýslu okkar, til að mynda reglur um samkeppni á markaði.“

Sagði hún Breta vilja frelsi til þess að semja um sína eigin fríverslunarsamninga og stýra eigin löggjöf auk þess sem landamæragæsla á landamærum Írlands og Norður-Írlands ætti að vera eins lítil og mögulegt væri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×