Jói Berg lagði upp og hafði betur gegn Gylfa

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Burnley kom til baka og lagði Everton að velli
Burnley kom til baka og lagði Everton að velli vísir/getty
Íslensku landsliðsmennirnir Jóhann Berg Guðmundsson og Gylfi Þór Sigurðsson voru í byrjunarliðinu hjá sínum liðum þegar Burnley fékk Everton í heimsókn í fyrsta leik dagsins í enska boltanum.

Everton komst yfir í fyrri hálfleik þegar Cenk Tosun opnaði markareikning sinn í ensku úrvalsdeildinni með því að skalla boltann í netið eftir fyrirgjöf Theo Walcott sem Seamus Coleman flikkaði áfram og beint á kollinn á Tosun.

Heimamenn náðu hins vegar að koma til baka í síðari hálfleiknum. Á 56.mínútu skoraði Ashley Barnes og á 80.mínútu var svo komið að Chris Wood en hann skallaði þá hornspyrnu Jóhanns Berg í netið.

Skömmu síðar var Gylfa Þór skipt af velli og nokkrum mínútum síðar eða á 86.mínútu var fyrirliða Everton, Ashley Williams, vikið af velli fyrir algjöra fífldirfsku. Ekki í fyrsta skiptið sem kappinn gerir sig sekan um slíkt en tilburðir hans í baráttu við Barnes minntu frekar á tilþrif í blönduðum bardagalistum en knattspyrnu.

Tíu á móti ellefu tókst Everton ekki að jafna metin á lokamínútunum og 2-1 sigur Burnley staðreynd. Burnley styrkti þar með stöðu sína í 7.sæti deildarinnar þar sem liðið hefur 40 stig. Everton með sex stigum minna í 9.sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira