Erlent

Ákærur gegn Rússum sem stálu tölvupóstum demókrata sagðar í undirbúningi

Kjartan Kjartansson skrifar
Sumir tölvupóstanna sem var lekið eftir innbrotið voru vandræðalegir fyrir Hillary Clinton og kosningastjóra hennar John Podesta.
Sumir tölvupóstanna sem var lekið eftir innbrotið voru vandræðalegir fyrir Hillary Clinton og kosningastjóra hennar John Podesta. Vísir/AFP
Robert Mueller, sérstakur rannsakandi bandaríska dómsmálaráðuneytisins á afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016, er sagður undirbúa mál á hendur rússneskum hökkurum sem stálu og láku tölvupóstum demókrata. Þrettán Rússar hafa þegar verið ákærðir í tengslum við rannsóknina vegna félagsmiðlaherferðar fyrir kosningarnar.

Fréttastofa NBC-sjónvarpsstöðvarinnar hefur eftir heimildarmönnum sínum að Mueller hafi lengi búið yfir gögnum til þess að ákæra mennina en tímasetning ákæra gæti ráðist af því hvað saksóknarar telji að geti hjálpað rannsókninni mest.

Heimildarmönnunum ber ekki saman um hvort að ákæurnar séu yfirvofandi. Þeirra gæti þó verið að vænta á næstu vikum eða mánuðum. Mueller gæti einnig ákveðið að bíða með ákærurnar til þess að gefa ekki upp leyniþjónustuupplýsingar eða leggja þær fram innsiglaðar þannig að efni þeirra verði ekki opinbert fyrst um sinn.

Rússnesk yfirvöld eru talin hafa staðið að baki þegar tölvuþrjótar brutust inn í tölvupósta landsnefndar Demókrataflokksins og John Podesta, kosningastjóra Hillary Clinton. Póstarnir voru birtir opinberlega í gegnum uppljóstranavefinn Wikileaks og urður að meiriháttar umræðuefni í kosningabaráttunni.

Trump vitnaði ítrekað til póstanna og hvatti Rússa meðal annars til þess að finna tölvupósta Clinton frá þeim tíma þegar hún var utanríkisráðherra og notaði einkatölvupóstþjón eins og frægt er orðið.


Tengdar fréttir

Starfsmaður framboðs Trump játar sök

Rick Gates gæti veitt rannsakendum upplýsingar um það sem gekk á innan forsetaframboðs Donalds Trump fyrir kosningarnar árið 2016. Hann hefur gert samkomulag við saksóknara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×