Erlent

Filippseyjar ætla að segja skilið við Alþjóðaglæpadómstólinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Þúsundir hafa verið teknir af lífi án dóms og laga í fíkniefnastríði Duterte forseta.
Þúsundir hafa verið teknir af lífi án dóms og laga í fíkniefnastríði Duterte forseta. Vísir/AFP
Ríkisstjórn Filippseyja segist ætla að slíta tengslin við Alþjóðaglæpadómstólinn. Rodrigo Duterte, forseti landsins, hefur sakað dóminn um að fara ekki eftir settum reglum og embættismenn Sameinuðu þjóðanna um „svívirðilegar árásir“.

Dómstóllinn er með kvörtun gegn Duterte til skoðunar. Filippseyskur lögfræðingur sakaði hann og aðra hátt setta embættismenn um glæpi gegn mannkyninu í fíkniefnastríðinu sem Duterte hefur háð. Þúsundir manna hafa fallið í því, oft og tíðum fyrir hendi lögreglumanna utan dóms og laga.

Talsmaður Duterte segir að skoðunin sé hluti af samsæri óvina forsetans, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar. Því hefur ríkisstjórn hans ákveðið að segja sig tafarlaust frá Rómarsáttmálanum, grundvallarsáttmálanum um stofnun dómstólsins.

Í yfirlýsingu forsetans sagði hann ástæðuna „tilhæfulausar, fordæmalausar og svívirðilegar árásir“ embættismanna Sameinuðu þjóðanna og tilraunir saksóknara Alþjóðaglæpadómstólsins um að hafa lögsögu yfir honum „þvert á viðteknar reglur og grundvallarreglu um að menn séu álitnir saklausir“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×