Lífið

Claire Foy fékk minna borgað en mótleikari hennar í The Crown

Birgir Olgeirsson skrifar
Claire Foy í hlutverki Englandsdrottningar en fyrir aftan hana stendur Matt Smith í hlutverki eiginmanns drottningarinnar.
Claire Foy í hlutverki Englandsdrottningar en fyrir aftan hana stendur Matt Smith í hlutverki eiginmanns drottningarinnar. Netflix
Leikkonan Claire Foy fékk minna borgað en mótleikari hennar Matt Smith í Netflix-þáttaröðinni The Crown. Sú sería segir frá ævi Elísabetar Englandsdrottningar en Foy fór með hlutverk drottningarinnar í fyrstu tveimur þáttaröðunum en Smith lék Filippus prins, eiginmann drottningarinnar.

Greint er frá þessu á vef breska dagblaðsins The Guardian en þar er vísað í framleiðendur The Crown.

Framleiðendurnir greindu frá þessu á málþingi í Jerúsalem fyrr í dag þar sem þeir voru spurðir hvort Matt Smith hefði fengið meira borgað en Foy.

Framleiðendurnir, Suzanne Mackie og Andy Harries, sögðu að Smith hefði fengið meira borgað vegna þess að hann væri þekktari en Foy eftir að hafa leikið í þáttaröðinni vinsælu Doctor Who. Sögðust framleiðendurnir ætla að leiðrétta þetta þegar næstu þáttaraðir The Crown fara í framleiðslu.

„Hér eftir mun enginn fá meira borgað en drottningin,“ sagði Mackie við þá sem sóttu þetta málþing.

Foy er sögð hafa fengið um 40 þúsund dollara, sem samsvarar tæpum fjórum milljónum króna miðað við gengi dagsins í dag, fyrir hvern þátt í The Crown en hún mun ekki leika í þriðju þáttaröðinni, sem verður tekin upp í sumar, því nýir leikarar verða fengnir inn sem henta betur fyrir það æviskeið drottningarinnar sem verður til umfjöllunar í þeirri þáttaröð.

Foy hefur hlotið Golden Globe-verðlaun og Bafta-verðlaun fyrir leik sinn í The Crown en leikkonan Olivia Colman mun taka við af henni í þriðju þáttaröðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.