Innlent

Fleiri erlendir ferðamenn slasast í umferðinni hér á landi

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Tæplega tvö hundruð og fimmtíu erlendir ferðamenn slösuðust eða létu lífið í umferðinni hér á landi á síðasta ári og er það meira en tvöföldun frá árinu tvö þúsund og ellefu. Alvarlegum slysum þar sem bílar aka framan á hvorn annan fer fjölgandi.

Ökumenn og farþegi í bílnum sem rákust saman á Suðurlandsvegi við Iðjuvelli skammt austan Kirkjubæjarklausturs í gær, eru allir á gjörgæsludeild Landspítalans. Áreksturinn var mjög harður en talið er að annarri bifreiðinni hafi verið ekið yfir á öfugan vegarhelming.

Um er að ræða erlenda ferðamenn frá Bandaríkjunum og Taívan og eru meiðsli þeirra mikil. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er það til rannsóknar hvað olli því að annar bíllinn fór yfir á öfugan vegar helming og að ekkert liggi fyrir hvers vegna það gerðist.

Ekki eru liðnir nema fjórir dagar síðan tveir erlendir ferðamenn létust í árekstri við flutningabifreið á Lyngdalsheiði. Talið er að aðdragandinn hafi verið sá sami og í slysinu í gær. Bæði þá og í gær urðu slysin við góðar aðstæður. Bjart og þurrt í veðri.

Erlendir ferðamenn sem slasast hafa í umferðinni hér á landi hafa nær þrefaldast frá árinu 2003. Það ár slösuðust áttatíu og átta ferðamenn og þrír létust. Fæstir slösuðust árið 2008 eða fjörutíu og sex. Gríðarlegt stökk varð árið 2001 þegar hundrað og tíu erlendir ferðamenn slösuðust í umferðinni samanborið við áttatíu og þrjá árið áður. Á síðasta ári slösuðust tvö hundruð þrjátíu og fjórir erlendir ferðamenn og fimm létu lífið.

Árið 2014 létust fjórir í umferðinni og er það sögulega lágt hlutfall sé horft aftur til ársins 1992. Árið 2006 létust hins vegar flestir eða þrjátíu og einn og árið 2000 þrjátíu og tveir.Á síðasta ári létust sextán í umferðinni á Íslandi og þar sem af er þessu ári hafa fimm látist í umferðarslysum.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×